Foreldraviðtöl, starfsdagur og vetrarleyfi

Fimmtudaginn 15.október eru foreldraviðtöl í GRV. Vegna aðstæðna verða viðtðlin rafræn í ár, foreldrar fá leiðbeiningar frá umsjónarkennurum varðandi framkvæmd. Foreldrar geta sem áður bókað viðtöl á mentor. Hér má sjá leiðbeiningar um hvernig það er gert:  https://www.youtube.com/watch?v=mEFYnJhJAsM

Föstudaginn 16. október er starfsdagur og ekki skóli hjá nemendum. Heilsdagsvistun á Frístund verður í boði þennan dag, hægt er að hafa samband við fristund@vestmannaeyjar.is. 

Mánudag 19. okt. og þriðjudag 20. okt. er vetrarleyfi í GRV. 

Við vonum að nemendur og foreldrar geti átt notalegan tíma saman í vetrarleyfinu, helst heima við wink

Minnum á tilkynningu aðgerðarstjórnar almannavarna í Vestmannaeyjum, þá vill aðgerðastjórn biðla til bæjarbúa að forðast óþarfa ferðalög á höfuðborgarsvæðið og ef nauðsynlega þarf að ferðast þangað að hafa hægt um sig nokkra daga á eftir.

Hertar reglur í grunnskóla, leikskólum og frístund næstu tvær vikurnar

Kæru foreldrar/forráðamenn.
 
Nú þegar neyðarstigi almannavarna vegna COVID-19 hefur verið lýst yfir og samkomutakmarkanir hafa verið hertar næstu tvær vikurnar þykir ástæða til að skerpa enn frekar á sóttvörnum í grunnskóla, leikskólum og frístund.
Heimsóknir utanaðkomandi aðila í skólabyggingarnar verða takmarkaðar eins og hægt er næstu tvær vikurnar. Foreldrar/forráðamenn grunnskólabarna eru því beðnir um að koma ekki inn í byggingarnar nema brýna nauðsyn beri til.
Foreldrar/forráðamenn leikskólabarna og barna í frístundaveri komi eingöngu í fataklefa og staldri þar eins stutt við og kostur er.
Haft verður samband við þá foreldra/forráðamenn og aðra aðila sem eiga bókaðan fund í skólunum næstu tvær vikur og þeim boðinn rafrænn fundur eða frestun á fundartíma. Athugið að foreldraviðtöl þann 15. okt. verða rafræn.
Mikilvægt er að þeir sem í skólabyggingarnar koma viðhafi persónubundar sóttvarnir í hvívetna, s.s. þvoi hendur, spritti, haldi a.m.k. 2ja metra fjarlægð og noti grímu ef því verður ekki við komið.
 
Stjórnendur grunn- og leikskóla Vestmannaeyjabæjar

Samræmd próf í 4. og 7. bekk.

Samræmd próf í 7. bekk verða dagana 24.og 25. mars.

Nemendum verður skipt í tvo hópa og munu umsjónarkennarar senda heim, hópaskiptingar og tímasetningar tímanlega fyrir próf. 

Þessir dagar eru skertir hjá 7. bekk og mæta þau einungis í próf þessa daga. 

Samræmd próf í 4. bekk verða dagana 30. sept og 1. október.

Allir nemendur í 4. bekk taka prófið á sama tíma og verður hefðbundinn skóladagur hjá þeim að loknu prófi. 

 

Það er mikilvægt að heimili og skóli hjálpist að í undirbúningi og nemendur komi tilbúnir, vel úthvíldir og vel nærðir í prófin. 

Hér má sjá upplýsingar um prófin og hvað skólinn gerir í undirbúningi og hvað foreldrar geta gert í undirbúningi fyrir þessi próf. 

Göngum í skólann og norræna skólahlaupið

Miðvikudaginn 2. september hefst átakið Göngum í skólann.


Verkefnið er alþjóðlegt, það stendur yfir frá 2. september og lýkur á alþjóðlega Göngum í skólann deginum þann 7. október. Á hverju ári taka milljónir barna í yfir 40 löndum víðs vegar um heiminn þátt í Göngum í skólann með einum eða öðrum hætti.

Líkt og undanfarin ár ætlum við í GRV að hittast og hefja átakið Göngum í skólann með því að 1. - 5. bekkur býður vinabekkjum sínum í heimsókn.
Af sóttvarnarástæðum munum við ekki vera með heimsóknir vinabekkja í skólahúsnæði heldur munu vinaárgangar fara í göngur saman og fara í leiki utandyra. Umsjónarkennarar munu láta vita hvenær af göngunum verður.
Athugið að senda börnin klædd eftir veðri og í skóm sem henta í göngu þessa daga.

Vinaárgangar:
1. bekkur og 6. bekkur
2. bekkur og 7. bekkur
3. bekkur og 8. bekkur
4. bekkur og 9. bekkur
5. bekkur og 10. bekkur

Í kjölfarið viljum við í samvinnu við ykkur hvetja nemendur á öllum stigum til að ganga í skólann á meðan átakinu stendur. Það bætir heilsu, eflir ánægju og er umhverfisvænt.
Yngstu nemendur geta gengið síðasta spölinn sé þeim fylgt áleiðis.
Keppnin um gullskóinn stendur yfir á meðan átakinu stendur og verða viðurkenningar veittar á öllum stigum skólans.

 

Norræna skólahlaupið verður haldið í tengslum við upphaf Göngum í skólann, stefnt er á að halda hlaupið fljótlega. Tímasetning auglýst síðar.

Allir hlaupa sama hring, ÍBV hringinn sem eru 3 km. Við hvetjum foreldra sem hafa tök á, að koma og taka þátt í hlaupinu með okkur. 

Framkvæmdir á skólalóð Hamarsskóla

Framkvæmdir á skólalóð Hamarsskóla

Kæru foreldrar og forráðamenn barna í Hamarsskóla. Eins og þið hafið tekið eftir, þá eru hafnar framkvæmdir á hluta skólalóðar við Hamarsskóla. Öflugar vinnuvélar eru að störfum innan vel afmarkaðs svæðis þar sem ýtrustu varkárni er gætt en óhjákvæmilega fylgir framkvæmdunum töluvert rask.

Byrjað er að girða af svæðið næst skólanum, svo öruggt sé að nemendur og þeir sem fara um lóðina komist ekki inn á vinnusvæðið.

Mikilvægt er að foreldrar séu upplýstir um að fyllsta öryggis er gætt í allri umferð um svæðið/skólalóðina af hálfu verktakans. Einnig er starfsfólk skólans vel meðvitað um mikilvægi öryggissvæðis á skólatíma.

Á myndinni má sjá teikningu af framkvæmdum og hvar búið er að girða svæðið af. 

Það er ljóst að við þessa aðgerð mun leiksvæði nemenda skerðast í þær vikur sem framkvæmdir standa yfir.

Hjálpumst að og horfum til þess að hér bíður okkar nýtt og fallegt leiksvæði þegar framkvæmdum líkur.

Skólastjóri GRV og umhverfis- og framkvæmdasvið Vestmannaeyjabæjar.