- Skólinn
- Stoðþjónusta
- Nemendur
- Foreldrar
Sveitarfélög sinna mati og eftirliti með gæðum skólastarfs, sbr. 5. og 6. gr. grunnskólalaga, og láta ráðuneyti í té upplýsingar um framkvæmd skólahalds, innra mat skóla, ytra mat sveitarfélaga, framgang skólastefnu sinnar, áætlanir um umbætur. Tilgangurinn með slíku mati er að leiða til umbóta í skólastarfi.
Starfsmannasamtöl eru haldin tvisvar á hverju skólaári. SVÓT greining (styrkleikar, veikleikar, ógnanir og tækifæri) er framkvæmd í öllum starfsmannahópum grunnskólans annað hvert vor. Niðurstöður úr þessu mati eru teknar saman af stjórnendum á hverju vori og settar saman í skýrslu.
Á haustdögum 2019 var myndað matsteymi vegna innra mats. Í matsteyminu eru þrír deildarstjórar, tveir kennarar, einn stuðningsfulltrúi, einn ritari, einn nemandi og eitt foreldri. Teymið skiptir með sér verkum, kýs formann, fer yfir langtímaáætlunina og vinnur að endurskoðun starfsáætlunar, skólanámsskrár og læsisstefnu.
Veturinn 2020 - 2021 var teymið ekki virkt sem slíkt en deildarstjórar sinna samantekt á mælanlegum þáttum skólastarfsins.
Hér má finna skýrslur um innra mat síðustu ára.
Grunnskólalög kveða á um að hver grunnskóli meti með kerfisbundnum hætti árangur og gæði skólastarfs með virkri þátttöku starfsmanna, nemenda og foreldra eftir því sem við á. Grunnskóli Vestmannaeyja er þátttakandi í Skólapúlsinum sem er nemenda-, foreldra – og starfsmannakönnun. Skólapúlsinn er einn liður í innra mati skólans og niðurstöður hans eru nýttar til að styrkja innra starf skólans.
Samantektir úr skólapúlsi eru kynntar á starfsmannafundum og koma auk þess fram í skýrslu um innra mat, þar sem niðurstöður Skólapúlsins eru nýttar í innra mati skólans.
Ársskýrsla GRV kom út í fyrsta sinn vorið 2016. Markmið með útgáfu skýrslunnar er að gera grein fyrir því fjölbreytta starfi sem fer fram í Grunnskóla Vestmannaeyja, ásamt því að halda saman nauðsynlegum upplýsingum úr skólastarfinu. Hún mun nýtast sem góð heimild um skólastarfið í heild sinni frá ári til árs. Skýrsluna prýða ýmsar myndir úr skólastarfinu sem gefa lesendum innsýn í það og gera hana líflegri. Að gerð skýrslunnar koma skólastjóri, aðstoðarskólastjórar, deildarstjórar og kennarar. Efir skólaárið 2017-2018 var ákveðið að gefa ekki lengur út árskýrslu, þar sem helstu upplýsingar um skólastarf koma fram í skólanámskrá og námsáætlunum.
Í nóvember 2021 var framkvæmt ytra mat á skólanum. Menntamálastofnun stendur að matinu sem unnið er fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga. Niðurstöður birtast í opinberri skýrslu sem verður meðal annars birt á heimasíðu Menntamálastofnunar, mms.is og hér á heimasíðu skólans.
Matinu er fyrst og fremst ætlað að styðja skóla við að auka gæði náms og skólastarfs ásamt því að stuðla að umbótum. Tilgangurinn er einnig að afla upplýsinga fyrir fræðsluyfirvöld, starfsfólk skóla, foreldra og nemendur um skólastarfið, árangur þess og þróun ásamt því að tryggja að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrá grunnskóla.
Í skýrslunni er gerð grein fyrir stöðu skólans á metnum þáttum og eru styrkleikar og tækifæri til umbóta hvers matsþáttar settar fram.