- Skólinn
- Stoðþjónusta
- Nemendur
- Foreldrar
Framtíðarsýn GRV er að við sköpum okkur sérstöðu í náttúruvísindum þar sem eftirfarandi markmið eru höfð að leiðarljósi:
Efla umhverfisvitund nemenda og gera þá meðvitaðri um umhverfi sitt og heimabyggð, miðla fróðleik um náttúru Vestmannaeyja gegnum veraldarvefinn,
efla áhuga og námsgleði nemenda og efla flæði milli skólastiga svo samfella skapist í námi.
Hugmyndin er að náttúruvísindi sé kennd á öllum skólastigum þar sem samfella milli skólastiga verði viðhöfð. Námið er heilstætt þar sem allar námsgreinar skarast og verklegum þætti gert hátt undir höfði.
Náttúrvernd og menntun gegna stóru hlutverki hvað varðar mannlífið. Hún skapar aukin tækifæri til að efla ábyrgðarkennd nemenda, umhyggju og virðingu fyrir náttúrunni með aukinni kennslu og fræðslu í náttúruvísindum.
Náttúruvísindi á Heimaey eru þáttur í vinnu skólans og liður í því eru Náttúruvísindadagar. Náttúruvísindadagar eru ekki tilgreindir sérstaklega á skóladagatalinu. Í 1. – 7. bekk festa náttúrufræðikennarar daga/vikur þar sem þeir verða með útikennslu og setja inn í kennsluáætlanir. Náttúruvísindadagar á unglingastigi eru tveir dagar í september í tengslum við dag íslenskrar náttúru sem er 16. sept.
Til að auka við frekari þekkingu nemenda á náttúrunni í Vestmannaeyjum var ákveðið að hver árgangur ynni með eina plöntu sem vex í Vestmannaeyjum, einn varpfugl og einn fisk sem veiðist við Eyjar. Þannig ættu nemendur að hafa öðlast góða þekkingu á tíu plöntum, tíu varpfuglum og tíu fiskum við lok grunnskólans.
Skólalundur með eldstæði er staðsettur í gamla hrauninu vestur á eyju. Efnt var til hugmyndasamkeppni um nafn á svæðið og var nafnið Klettaborg hlutskarpast. Þegar hafa nokkrir kennarar farið á námskeið í útieldun og eru byrjaðir að fara í Klettaborg með námshópa að vinna verkefni, elda eða fara í útileiki. Leikskólum bæjarins hefur einnig verið boðið að nýta sér Klettaborg.
Teknar voru í notkun svokallaðar ferilmöppur, náttúruskólabækur, sem nemendur fá afhentar í 1. bekk og vinna með alla sína grunnskólagöngu. Þegar nemendur útskrifast úr 10. bekk fá þeir þessar möppur afhentar og eiga þá gott safn verkefna um náttúru Vestmannaeyja.
Allir bekkir fara í svokallaðar örnefnagöngur sem er ákveðin gönguleið sem hver árgangur á. Nemendur kynnast gönguleiðum í sinni heimabyggð, örnefnum og sögum.
Talsvert samstarf er við Náttúrugripasafnið, Surtseyjarstofu, Byggðasafn Vestmannaeyja og Þekkingarsetur Vestmannaeyja og þá sérfræðinga sem þar starfa.
Hver bekkur á sína gönguleið og umhverfisstíga sem nota á í útikennslu.