Vilt þú hafa áhrif - hefur þú áhuga á skólastarfinu ?

Framtíðarsýn og áherslur í skólastarfi

Vilt þú hafa áhrif á framtíðarsýn í skólastarfi?

Vestmannaeyjabær vinnur nú að því að uppfæra framtíðarsýn í skólastarfi sem er frá árinu 2015 og gilti til ársins 2020. Framtíðarsýninni er ætlað að vera leiðarljós og innblástur fyrir leik- og grunnskóla varðandi helstu áhersluþætti sem eru læsi, stærðfræði, tæknimennt og snemmtæk íhlutun.

Faghópur, skipaður af fræðsluráði, sem samanstendur af fulltrúum ýmissa hagsmunahópa hóf undirbúningsvinnu í mars 2020 en síðan þá hefur ítrekað þurft að fresta þeirri vinnu vegna aðstæðna í þjóðfélaginu undanfarið eitt og hálft ár. Það hefur þó gengið vel á haustmánuðum að koma vinnunni af stað aftur og áætlað er að ljúka við framtíðarsýnina í desember 2021 þannig að hún geti tekið gildi á næsta ári.

Markmiðið er að ná breiðri samstöðu um mikilvægustu markmiðin varðandi læsi, stærðfræði, tæknimennt og snemmtæka íhlutun og til að það takist þarf að fá sem flesta að borðinu til að ná fram ólíkum sjónarmiðum.

Kennarar leik- og grunnskóla hafa nú þegar komið að þessari vinnu á sérstökum vinnufundum og þessa dagana er verið að ljúka vinnu með nemendum þar sem þeir leggja sín lóð á vogarskálina.

Nú er komið að foreldrum/forráðamönnum og öllum öðrum sem hafa áhuga á skólamálum og vilja hafa áhrif á framtíðarsýnina. Opinn vinnufundur verður miðvikudaginn 3. nóvember kl. 16:30-17:30 á sal Barnaskólans. Foreldrar/forráðamenn og þeir sem áhuga hafa á skólamálum eru hvattir til að mæta.

Hér má finna viðburðinn á facebook, það má deila honum sem víðast: https://www.facebook.com/events/1963793017116752?ref=newsfeed