Staðan í skólanum hvað varðar Covid-19.

Eins og við var að búast hafa covid- 19 smit haft áhrif á skólastarfið hjá okkur síðustu daga.

Staðan er þó alveg nokkuð góð, þó smit hafi greinst í einhverjum bekkjum.

Eitt smit greindist í 8. bekk í síðustu viku og nemendur eru lausir úr sóttkví.

Í 10. bekk greindist nemandi jákvæður og grunur um fleiri smit, nemendur voru í úrvinnslusóttkví í 2 daga og hluti af hópnum fór í lengri sóttkví.

Smit greindist í 3. bekk og grunur um fleiri og var bekkurinn settur í sóttkví sem lauk í gær og þau eru mætt aftur í skólann í dag.

Smit hafa greinst einnig í einum 1. bekk og einum 2. bekk. Nemendur í þessum bekkjum voru í úrvinnslusóttkví í gær á meðan unnið var úr rakningu og eru hluti af nemendum í þessum bekkjum komin í sóttkví en aðrir í smitgát.

Þar sem við búum við það að niðurstöður úr pcr prófum eru oft lengi að berast höfum við verið að bregðast við fyrr ef niðurstöður úr hraðprófum eru jákvæðar. Hafa ber þó í huga að hvert atvik fyrir sig er metið og ekki endilega sömu aðgerðir sem fara af stað í hvert sinn. Það fer t.d. eftir hversu útsettur nemandi er fyrir smiti og líka hvort grunur sé um fleiri en eitt smit í bekk.

Reynt er einnig eftir fremsta megni að senda ekki heilu bekkina/árgangana í sóttkví, smitrakning fer fram og þeir sem eru mest útsettir fara í sóttkví og þá er hægt að nota smitgát fyrir restina af hópnum. Allar ákvarðanir varðandi sóttkví, úrvinnslusóttkví og aðrar aðgerðir eru gerðar í samvinnu við smitrakningu og umdæmislækni sóttvarna á Suðurlandi. Af gefnu tilefni viljum við árétta að smitrakning á vegum skóla á aðeins við um skólastarf, ekki íþróttastarf eða félagslíf sem er ótengt skóla, það er í höndum hins smitaða/forráðamanns að gefa upplýsingar um það. 

Enn og aftur viljum við ítreka það að séu nemendur með einkenni mæti þeir ekki í skólann og fari í pcr próf. Ef ekki er hægt að komast strax í pcr að nota þá heimapróf í millitíðinni og láta umsjónarkennara vita um niðurstöðu. Nemendur í sóttkví hafa verið að greinast jákvæðir og flestir eru með einkenni eins og kvefeinkenni, hálsbólga, hausverkur og einkenni lík ælupest.

Við bendum á upplýsingar á covid. is. Þar má finna svör við flestum spurningum sem brenna á okkur varðandi Covid-19.