Lausnahringurinn

„Í maí síðastliðnum fékk þverfaglegt teymi starfsmanna Víkurinnar 5 ára deildar og Grunnskólans úthlutaðan þróunarstyrk frá Vestmannaeyjabæ til þess að innleiða Lausnahringinn hér í Eyjum. Lausnahringurinn snýr að því að þjálfa börn í góðum samskiptareglum. Er þá hugmyndin að mynda samfellu í félagsfærniþjálfun á milli skólastiga, þ.e. að það sé verið að vinna með lausnahringinn frá 5 ára deildinni og alla skólagönguna. Innleiðing er hafin á Víkinni og í Grunnskólanum og hefur allt starfsfólk fengið kynningu á efninu og er vonast eftir góðum viðbrögðum frá heimilum í bænum.

Segja má að Lausnahringurinn séu nokkurskonar samskiptareglur til að þjálfa börn og fullorðna til að setja og virða mörk, til að styrkja samskipti og bera virðingu fyrir öðrum.

Markmið Lausnahringsins í Vestmannaeyjum

Starfsfólk grunnskólans og á Víkinni ætla að stuðla að bættri samskipta hæfni í okkar samfélagi. Til þess að það geti orðið þurfum við að fá sem flesta í lið með okkur og tileinka okkur þessa einföldu leiðir til þess að bæta samskipti. Hjálpumst öll að og verum fyrirmyndir barnanna í samfélaginu okkar.

Í grunninn gengur Lausnahringurinn út á að þjálfa og efla sig í félags- og tilfinningafærni. Sú færni þróast og mótast með hverjum barnahópi, fjölskyldum þeirra og starfsfólki skólanna hverju sinni.Lausnahringurinn byggist á uppeldisstefnunni jákvæður agi (e. positive discipline), samskipti byggð á gagnkvæmri virðingu. Jákvæður agi kennir félagsfærni og lífsleiki og byggist á kennslu, skilning, hvatningu og samskiptum.

Lausnahringurinn varð til þegar elstu börniní leikskólanum áttu erfitt með að finna út úr erfiðleikum í samskiptum. Þegar við ræddum um tilfinningar og líðan okkar í erfiðum og flóknum samskiptum, þá komu þau með tillögur að 7 reglum sem þau vildu hafa til hliðsjónar og reyna að bæta samskiptin. Þessar reglur voru teiknaðar upp og börnin höfðu teikninguna til hliðsjónar. Það varð úr að þau ákváðu að kalla þetta Lausnahringinn. Síðar meir fundu þau hvað þetta Lausnahringja-verkfæri sem þau bjuggu til og mótuðu, væri hreinlega eitthvað sem allir eiga að tileinka sér, meira að segja borgarstjórinn og æðstu leiðtogar heimsins.Þau hafa mikila trú ef allir myndu tileinka sér þessar einföldu reglur þá væri lífið betra sérstaklega fyrir þau.

Lausnahringurinn gengur í grunninn út á að þjálfa og efla sig í félags og tilfinningafærni, hann þróast og mótast með hverjum barnahóp, starfsfólki skólans og fjölskyldum hverju sinni.

Margir sem taka þátt í vinnu með Lausnahringinn og hafa öðlast færni að tileinka sér samskipti í gegnum Lausnahringinn, hafa kallað eftir áframhaldandi vinnu með það. Flestum líður vel með að hafa skýrar reglur í samskiptum. Sem segir að bæði fullorðnir og börn þrá að halda áfram að þróa sig í því að setja og virða mörk í samskiptum.

Við erum fyrsta bæjarfélagið sem innleiðir hringinn á grunnskólastigi svo það er í þróun að hanna hringinn fyrir alla aldurshópa. Eftir því sem börnin eldast þá verða samskiptin flóknari og er Lausnahringurinn góð kveikja til samtals við börnin, sama á hvaða aldri þau eru. Félagsfærnin breytist en er alltaf jafn mikilvæg þegar börnin okkar verða eldri. Áskoranir verða meiri en með Lausnahringinn sem grunn sjáum við fyrir okkur að fá eldri krakkana okkar til þess að hjálpa okkur að útfæra hann svo hann nýtist þeim þegar þau verða eldri. Verður spennandi að fara af stað með þá vinnu í Barnaskólanum á næstu vikum og mánuðum.

Við erum Lausnahetjur þegar við sýnum fram á að vilja bæta samskipti og setja mörk. Að halda áfram að bæta og styrkja samskipti milli allra. Hver og einn einasti sem hefur áhuga á vinnu með Lausnahringinn og vill tileikna sér þann lífsstíl er sjálfkrafa sín eigin Lausnahetja og fyrirmynd fyrir aðra stóra sem smáa að gera slíkt hið sama.