Kveikjum neistann !

Í dag var undirrituð viljayfirlýsing á samstarfi, Vestmannaeyjabæjar, Háskóla Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Samtaka atvinnulífsins. Samstarf þetta felur í sér undirbúning og framkvæmd þróunar- og rannsóknarverkefnis sem Grunnskóli Vestmannaeyja fer af stað með næsta haust, í samstarfi einnig við Hermund Sigmundsson prófessor. 

Markmiðið með verkefninu er að efla læsi nemenda, auka grunnfærni í stærðfræði og náttúruvísindum, efla hreysti og hreyfingu og breyta hugarfari. Rannsóknarverkefnið miðar að því að fylgja nemendum eftir frá upphafi grunnskólagöngu þeirra haustið 2021 og til loka hennar – alls í tíu ár.

Þróunarvinnan hófst í morgun með því að stjórnendur og kennarar á yngsta stigi GRV funduðu með þeim aðilum sem koma að verkefninu og grunnur lagður að frekari samvinnu. 

Þetta er einstakt verkefni og tækifæri fyrir okkur sem samfélag að stuðla að því að efla læsi og bæta líðan nemenda og gefa þeim gott veganesti út í lífið. Við í GRV treystum á foreldra og allt samfélagið í Eyjum að koma með okkur í þessa vegferð.