Fyrstu dagar skólaársins

Skólaárið fer vel af stað í Grunnskóla Vestmannaeyja. Í haust hóf 541 nemandi nám við skólann, 223 á yngsta stigi, 160 á miðstigi og 158 á unglingastigi.

Skólasetning fór fram með óhefðbundnum hætti þar sem nemendur mættu án foreldra að undanskildum nemendum 1. bekkjar.

Ólympíuhlaup ÍSÍ fór fram þann 3. september og tóku allir nemendur skólans þátt í því. Nemendur hlupu ýmist 1,5, 3 eða 5 kílómetra og fór það eftir aldri. Vel viðraði á hlaupara sem allir gerðu sitt besta.

Þann 8. september hófst átakið, Göngum í skólann. Markmiðið er að auka hreyfingu og hvetja nemendur til þess að koma gangandi í skólann. Í sumum árgöngum er farið í göngur á þessu tímabili og farið yfir helstu hættur í umferðinni. Nemendur á yngsta - og miðstigi keppa um Gullskóinn þannig að sá bekkur, sem flestir hafa gengið í skólann, á fyrstu tveimur vikum átaksins hreppir hann. Þegar veðrið hefur verið í lagi, hafa nemendur verið duglegir að vera úti að leika áður en skóli hefst. 

Sama dag var dagur læsis. Þemað í ár var lestur fyrir Jörðina. Nemendur á yngsta stigi fengu úrval af bókum fyrir framan stofurnar sínar sem þau gátu gluggað í og 1. bekkjar nemendur fengu bókasafnskynningu ásamt því að fá bókasafnskort afhent með formlegum hætti.

Á mið- og unglingastigi var lesið á göngunum sem þykir alltaf spennandi. Bókasöfn skólanna tóku þátt í deginum með því að taka fram bækur sem tengjast þemanu. Í Barnaskólanum fengu þau skemmtilegt verkefni þar sem nemendur lásu með mismunandi röddum t.d. eins og jólasveinn, geimvera eða óperusöngvari. Einnig fengu þeir nemendur sem lásu í sumarfíinu viðurkenningarskjal fyrir dugnaðinn.

Um miðjan september skellti 8. bekkur sér í skólaferðalag á Úlfljótsvatns en fresta þurfi ferðinni í vor vegna Covid. Ferðagið gekk vel þrátt fyrir rigningu og skemmtu nemendur sér vel.

Sinfóníuhljómsveit Suðurlands kom í heimsókn til okkar í lok september. Virkilega gaman að fá svona heimsóknir, þar sem lítið hefur verið um heimsóknir og sýningar í skólanum undanfarin tvö skólaár. Við erum farin að hlakka til að geta tekið á móti fleiri svona atriðum.