Fréttir


Skólahald frá 5. janúar

04-01-2021

Þriðjudaginn 5. janúar hefst skóli á ný eftir jólalaeyfi.

Skóli verður samkvæmt stundatöflu og nú hefur verið létt talsvert á takmörkunum í skólastarfi sem þýðir að við getum haft skólahald með nokkuð eðlilegum hætti. 

 • Hafragrautur verður aftur í boði á morgnana.
 • Hádegismatur verður í boði á ný.
 • Félagsaðstaða opnar fyrir unglingastigið í frímínútum.
 • Valgreinar á unglingastigi byrja aftur með hefðbundnum hætti.
 • List- og verkgreinar á miðstigi verða með hefðbundnum hætti.

Áfram þarf að huga vel að sóttvörnum í skólanum og sótthreinsa á milli hópa.

2 m reglan er í gildi meðal starfsfólks og grímuskylda þar sem ekki næsta að halda 2m. Grímuskylda hjá starfsfólki í matsal. 

Engin grímuskylda hjá nemendum.

Hámark 50 nemendur í hverju rými og hámark 20 starfsmenn. 

Foreldrar og aðstandendur skulu almennt ekki koma inn í skólabyggingar nema nauðsyn beri til. Stjórnendum grunnskóla er heimilt að krefja foreldra, þurfi þeir að koma inn í skóla­bygg­ingu, um að nota andlitsgrímur.

 

Hér má finna nýjustu reglurnar sem gilda til 28. febrúar 2021: https://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?RecordID=72703eb0-47b7-4de1-8723-5ef869658e81

 

Vonandi hafa allir haft það gott í jólaleyfinu og komi endurnærðir í skólann á ný.

Við hlökkum til að hitta nemendur og klára seinni helminginn af skólaárinu :)

Stjórnendur GRV

Gleðileg jól

18-12-2020

Litlu jólin og jólaleyfi

09-12-2020

Þar sem takmarkanir um fjöldatakmarkanir og blöndun nemenda eru enn í gildi í skólum verður ekki hægt að halda litlu jólin okkar með sama sniði og áður. 

Litlu jólin munu að þessu sinni vera haldin á skólatíma þann 17. desember 

1. - 4. bekkur: Jólaball og samvera í stofu og nemendum verður boðið upp á kakó, smákökur og mandarínur. Skóli hefst og lýkur eins og venjulega. Nemendur fara í sína íþróttatíma, en þeir nemendur sem eiga að fara sund þennan dag fara í íþróttir. 

5. - 7. bekkur klárar smiðjudagana sína fyrripart dags og verða svo með samveru í stofu eftir frímínútur og þar til skóla lýkur kl.12:30.  Nemendur mega taka með sér drykki og nasl.

 8. -10. bekkur: Skóli frá 8:20-11:20, samvera í stofu. Nemendur mega taka með sér drykki og nasl.

 

Við hvetjum nemendur til að mæta í betri fötum í skólann þrátt fyrir óhefðbundin litlu jól. 

 

Jólaleyfi nemenda hefst 18. desember og skóli hefst á ný samkvæmt stundatöflu þriðjudaginn 5. janúar. 

Heilsdagsvistun er á Frístund 18., 21., 22. 28., 29. og 30. desember. 

 

Við í GRV óskum ykkur gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Hafið það gott yfir hátíðarnar. 

 

               

 

Jóladagatal GRV

04-12-2020

Nemendum í Grunnskóla Vestmannaeyja langaði að lífga upp á tilveruna núna í desember.

Þeir ákváðu að gera jóladagatal og mun hver bekkur eiga sinn dag fram að jólum.

Á hverjum degi birtist nýr hlekkur þar sem verkefni, söngur, leikur og almenn gleði mun blasa við þeim sem opnar.

Nemendur teiknuðu myndirnar sem eru við hvern dag. 

Endilega fylgist vel með hér:

https://bit.ly/joladagatalgrv2020

Skólahald fram að jólaleyfi

01-12-2020
UPPFÆRT !
Takmarkanir á skólahaldi til 31. desember. 
https://www.stjornarradid.is/verkefni/menntamal/spurt-og-svarad-skolastarf-og-covid-19/#gunnskolar
Þetta þýðir að skólahald verður með nánast óbreyttum hætti til fram að jólaleyfi. Nýjar reglur um skólastarf taka svo gildi 1. janúar 2021. 
 

Við höldum áfram að vinna eftir þeim reglum sem í gildi eru og viljum gera það vel og komast hjá því að þurfa að senda nemendur og starfsfólk í sóttkví eða einangrun yfir jólahátíðina. Þess vegna reynum við að takmarka blöndun nemenda í bekkjum/árgöngum.

Helstu breytingar eru að að grímuskylda og nálægðartakmarkanir á unglingastigi falla út. Sem þýðir að skóladagur á unglingastigi verður aftur með hefðbundnum hætti, nema að valgreinar falla áfram niður. 

 

 • Grímuskylda kennara vegna nálægðar við nemendur gildir gagnvart nemendum í 8.-10. bekk, en ekki yngri nemendum.
 • Reglur um blöndun, fjölda, grímunotkun og nálægð gildi ekki á útisvæðum leik- og grunnskóla.
 • Um fjölda í íþrótta- og tómstundastarfi fari eftir leik- og grunnskólareglunum, blöndun nemenda er leyfileg í íþróttatímum. 
 • Nemendur í 1.-10. bekk eru undanþegnir 2 metra nálægðartakmörkun sem og grímuskyldu.
 • Ekki skulu vera fleiri en 50 nemendur í 1.-4. bekk í hverju rými og ekki fleiri en 25 í hverju rými í 5. -10. bekk. 
 • Í sameiginlegum rýmum skóla, svo sem við innganga, í anddyri, á salerni og göngum, er heimilt að víkja frá fjöldatakmörkun og reglu um blöndun hópa að því gefnu að nemendur í 8.-10. bekk og starfsfólk notist við andlitsgrímu.
 • Foreldrar og aðstandendur skulu almennt ekki koma inn í skólabyggingar nema brýna nauðsyn beri til, þá beri þeir andlitsgrímur.
 • Aðrir en starfsmenn sem koma inn í grunnskóla, svo sem kennarar tónlistarskóla, starfsfólk skólaþjónustu og vegna vöruflutninga, skulu bera andlitsgrímur.

Þar sem ekki má blanda hópum eða hafa fleiri en 25 nemendur í sama rými á miðstigi sjáum við okkur ekki fært að bjóða upp á hádegismat á miðstigi. Nemendur þurfa því að mæta áfram með tvöfalt nesti. Annars fer skólahald á yngsta - og miðstigi eftir gildandi stundatöflu og er með nokkuð eðlilegum hætti. 

 

Bestu kveðjur,
Anna Rós Hallgrímsdóttir skólastjóri 

Afrakstur tveggja flottra verkefna

20-11-2020

Við í Grunnskóla Vestmannaeyja erum heppin að eiga frábæra kennara sem eru alltaf að finna leiðir til að bæta kennsluna og skólastarfið. Á mánudaginn á degi íslenskrar tungu opnuðu tveir kennarar, þær Snjólaug Árnadóttir og Unnur Líf Ingadóttir heimasíðu sem heitir Út fyrir bókina. Þær hafa haldið úti facebook síðu með lifandi og skemmtilegum verkefnum sem miða að því að fara með kennsluna "út fyrir bókina". Við óskum þeim innilega til hamingju með þessa flottu heimasíðu og hvetjum ykkur til að skoða hana hér: https://utfyrirbokina.is/

Í vikunni kom einnig út íslensk/pólsk barnaorðabók sem Marta Sigurjónsdóttir sérkennari var að gefa út, GRV fékk eintak að gjöf og þessi bók á eftir að nýtast vel í nýbúakennslu í skólanum og vonandi í fleiri skólum. 

Bæði þessi verkefni fengu styrk frá Vestmanneyjabæ, en í ár var stofnaður þróunarsjóður leik- og grunnskóla til að stuðla að þróunar -og nýsköpunarstarfi í leik- og grunnskólum. Einnig fékk verkefnið, Út fyrir bókina hvatningarverðlaun fræðsluráðs fyrr í sumar.

Afrakstur þessara kennara sýnir hversu mikilvægt framtak það er að styðja við og hvetja áfram það góða starf sem fram fer í grunn- og leikskólum Vestmannaeyjabæjar.  

Breytingar á skólahaldi á mið- og unglingastigi

18-11-2020

Breytingar á unglingastigi taka gildi á morgun fimmtudag.  

Stundatafla nemenda breytist örlítið og í einhverjum tilfellum styttist skóladagurinn hjá þeim. Nemendur munu fá meiri "pásur" milli kennslustunda t.d. til að fara út á skólalóð og hvíla sig á grímunni. Íþróttatímar verða með hefðbundnum hætti í íþróttahúsinu.

Valgreinar falla áfram niður á meðan takmarkanir eru í gildi. 

Grímuskylda er enn í gildi innandyra á unglingastigi þar sem ekki næst að viðhalda 2m reglunni og hámarksfjöldi í hverju rými er 25. 

 

Nemendur í 5. -7. bekk mæta í skólann eftir hefðbundinni stundatöflu á mánudaginn. Hádegismatur verður áfram ekki í boði á meðan takmarkanir eru í gildi, nemendur þurfa að taka með sér tvöfalt nesti.

Íþrótta - og sundtímar verða í íþróttahúsi og byrja þeir tímar á morgun fimmtudag, nemendur þurfa að mæta með íþrótta-/sundföt. 

Grímuskylda og 2m regla hefur verið felld úr gildi hjá nemendum í 5. -7. bekk. En áfram þarf að halda hámarksfjölda í 25 í hverju rými. 

 

Anna Rós Hallgrímsdóttir

Skólastjóri GRV

Varðandi skólahald á morgun miðvikudaginn 18. nóvember.

17-11-2020

Ný reglugerð um takmarkanir á skólahaldi tekur gildi á morgun 18. nóv. Hún felur ekki í sér miklar breytingar frá fyrri reglum, nema að skólaíþróttir verða aftur heimilar og grímuskylda hjá 5.-7. bekk fellur niður. 

Hins vegar er enn nokkrum spurningum ósvarað og verður þess vegna skólahald með óbreyttum hætti á morgun miðvikudag.

Athugið samt sem áður að:

 • Nemendur í 8. -10. bekk þurfa áfram að mæta með grímur í skólann. 
 • Nemendur í 5. -7. bekk þurfa ekki að mæta með grímur í skólann.

 • Nemendur í 1.-4. bekk fara í íþróttir í íþróttahúsinu á morgun og þurfa þess vegna að taka með sér íþrótta/sunddót. 

Breytingar á skólahaldi í 5.-10. bekk eru væntanlegar fimmtudaginn 19. nóv. og upplýsingar varðandi það verða gefnar út á morgun. 

 

Anna Rós Hallgrímsdóttir

Skólastjóri GRV. 

Skólahald frá og með 3. nóvember

02-11-2020

Starfsfólk leik- og grunnskóla hefur skipulagt starfið í samræmi við nýju reglurnar og verður skólahald næstu tvær vikur með eftirfarandi hætti:

Skólahald er með nokkuð eðlilegum hætti í leikskólum og á yngsta stigi. Það er því miður einhver skerðing á skóladegi á mið- og unglingastigi.

Leikskólar

· Engar breytingar þar sem leikskólarnir í Eyjum hafa starfað með hólfaskiptingar síðustu vikur.

· Áfram verður tekið á móti börnum úti þegar veður leyfir.

· Foreldrar/forráðamenn skulu staldra eins stutt við í fataherbergi og kostur er og nota grímu.

Grunnskóli/Hamarsskóli

· Hefðbundin kennsla verður skv. stundaskrá í 1.-4. bekk.

· Íþróttakennsla og sund fellur niður þar sem íþróttahúsið er lokað. Þeim tímum verður sinnt í skólanum.

· Skólamatur er í boði.

Grunnskóli/Barnaskóli

· Nemendur í 5.-10. bekk mæta í skólann kl. 8:20

· Valgreinar á unglingastigi falla niður.

· Íþróttatímar falla niður hjá 9. og 10. bekk en verða nýttir til kennslu hjá 5.-8. bekk í skólanum. Allir sundtímar falla niður.

· Allir nemendur þurfa að mæta með grímu sem þeir bera á sameiginlegum svæðum en að auki þurfa nemendur á unglingastigi að bera grímur í kennslustofum þar sem ekki er hægt að tryggja 2m fjarlægð.

· Skólamatur er ekki í boði.

Frístundaver

· Hópaskiptingar verða þær sömu og í skóla.

· Börnin verða úti í lok dags ef veður leyfir.

· Foreldrar/forráðamenn og aðrir utanaðkomandi aðilar skulu ekki koma inn í bygginguna nema brýna nauðsyn beri til og þá skal nota grímu.

Tónlistarskóli

· Kennsla verður í tónlistarskólanum.

· Huga verður að 2 m reglunni og nota grímur þegar ekki næst að halda hana.

· Aðrir en nemendur og kennarar eiga ekki að koma inn í tónlistarskóla nema brýna nauðsyn beri til og skal þá nota grímu.

Foreldrar/forráðamenn eiga ekki að koma inn í skólabyggingarnar nema brýna nauðsyn beri til og skulu þeir þá vera með grímu. Sama á við um aðra utanaðkomandi aðila.

Nánari upplýsingar berast frá skólastjórnendum í tölvupósti og á facebook síðu skólans.

 

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri

Skólahald mánudaginn 2. nóvember

01-11-2020

Stjórnvöld hafa tilkynnt um hertari reglur og takmarkanir til að sporna við útbreiðslu COVID-19 og ná þær til leik- og grunnskólastarfs. Reglugerð um hertara skólastarf er væntanleg í kvöld. Til að  veita starfsfólki skólanna svigrúm til að skipuleggja skólastarf í samræmi við þá reglugerð sem væntanleg er verður skólahald með eftirfarandi hætti mánudaginn 2. nóvember:

Leikskólar taka á móti nemendum kl. 10 að loknum starfsmannafundi

Skipulagsdagur verður í Grunnskóla Vestmannaeyja og því fellur hefðbundin kennsla niður

Heilsdagsvistun verður í boði í frístundaveri

Kennsla verður í tónlistarskóla, nánari upplýsingar koma frá skólastjóra

 

Nánari upplýsingar verða birtar á vef Vestmannaeyjabæar og GRV á morgun, mánudag.

Foreldraviðtöl, starfsdagur og vetrarleyfi

12-10-2020

Fimmtudaginn 15.október eru foreldraviðtöl í GRV. Vegna aðstæðna verða viðtðlin rafræn í ár, foreldrar fá leiðbeiningar frá umsjónarkennurum varðandi framkvæmd. Foreldrar geta sem áður bókað viðtöl á mentor. Hér má sjá leiðbeiningar um hvernig það er gert:  https://www.youtube.com/watch?v=mEFYnJhJAsM

Föstudaginn 16. október er starfsdagur og ekki skóli hjá nemendum. Heilsdagsvistun á Frístund verður í boði þennan dag, hægt er að hafa samband við fristund@vestmannaeyjar.is. 

Mánudag 19. okt. og þriðjudag 20. okt. er vetrarleyfi í GRV. 

Við vonum að nemendur og foreldrar geti átt notalegan tíma saman í vetrarleyfinu, helst heima við wink

Minnum á tilkynningu aðgerðarstjórnar almannavarna í Vestmannaeyjum, þá vill aðgerðastjórn biðla til bæjarbúa að forðast óþarfa ferðalög á höfuðborgarsvæðið og ef nauðsynlega þarf að ferðast þangað að hafa hægt um sig nokkra daga á eftir.

Hertar reglur í grunnskóla, leikskólum og frístund næstu tvær vikurnar

05-10-2020
Kæru foreldrar/forráðamenn.
 
Nú þegar neyðarstigi almannavarna vegna COVID-19 hefur verið lýst yfir og samkomutakmarkanir hafa verið hertar næstu tvær vikurnar þykir ástæða til að skerpa enn frekar á sóttvörnum í grunnskóla, leikskólum og frístund.
Heimsóknir utanaðkomandi aðila í skólabyggingarnar verða takmarkaðar eins og hægt er næstu tvær vikurnar. Foreldrar/forráðamenn grunnskólabarna eru því beðnir um að koma ekki inn í byggingarnar nema brýna nauðsyn beri til.
Foreldrar/forráðamenn leikskólabarna og barna í frístundaveri komi eingöngu í fataklefa og staldri þar eins stutt við og kostur er.
Haft verður samband við þá foreldra/forráðamenn og aðra aðila sem eiga bókaðan fund í skólunum næstu tvær vikur og þeim boðinn rafrænn fundur eða frestun á fundartíma. Athugið að foreldraviðtöl þann 15. okt. verða rafræn.
Mikilvægt er að þeir sem í skólabyggingarnar koma viðhafi persónubundar sóttvarnir í hvívetna, s.s. þvoi hendur, spritti, haldi a.m.k. 2ja metra fjarlægð og noti grímu ef því verður ekki við komið.
 
Stjórnendur grunn- og leikskóla Vestmannaeyjabæjar

Samræmd próf í 4. og 7. bekk.

25-09-2020

Samræmd próf í 7. bekk verða dagana 24.og 25. mars.

Nemendum verður skipt í tvo hópa og munu umsjónarkennarar senda heim, hópaskiptingar og tímasetningar tímanlega fyrir próf. 

Þessir dagar eru skertir hjá 7. bekk og mæta þau einungis í próf þessa daga. 

Samræmd próf í 4. bekk verða dagana 30. sept og 1. október.

Allir nemendur í 4. bekk taka prófið á sama tíma og verður hefðbundinn skóladagur hjá þeim að loknu prófi. 

 

Það er mikilvægt að heimili og skóli hjálpist að í undirbúningi og nemendur komi tilbúnir, vel úthvíldir og vel nærðir í prófin. 

Hér má sjá upplýsingar um prófin og hvað skólinn gerir í undirbúningi og hvað foreldrar geta gert í undirbúningi fyrir þessi próf. 

Göngum í skólann og norræna skólahlaupið

02-09-2020

Miðvikudaginn 2. september hefst átakið Göngum í skólann.


Verkefnið er alþjóðlegt, það stendur yfir frá 2. september og lýkur á alþjóðlega Göngum í skólann deginum þann 7. október. Á hverju ári taka milljónir barna í yfir 40 löndum víðs vegar um heiminn þátt í Göngum í skólann með einum eða öðrum hætti.

Líkt og undanfarin ár ætlum við í GRV að hittast og hefja átakið Göngum í skólann með því að 1. - 5. bekkur býður vinabekkjum sínum í heimsókn.
Af sóttvarnarástæðum munum við ekki vera með heimsóknir vinabekkja í skólahúsnæði heldur munu vinaárgangar fara í göngur saman og fara í leiki utandyra. Umsjónarkennarar munu láta vita hvenær af göngunum verður.
Athugið að senda börnin klædd eftir veðri og í skóm sem henta í göngu þessa daga.

Vinaárgangar:
1. bekkur og 6. bekkur
2. bekkur og 7. bekkur
3. bekkur og 8. bekkur
4. bekkur og 9. bekkur
5. bekkur og 10. bekkur

Í kjölfarið viljum við í samvinnu við ykkur hvetja nemendur á öllum stigum til að ganga í skólann á meðan átakinu stendur. Það bætir heilsu, eflir ánægju og er umhverfisvænt.
Yngstu nemendur geta gengið síðasta spölinn sé þeim fylgt áleiðis.
Keppnin um gullskóinn stendur yfir á meðan átakinu stendur og verða viðurkenningar veittar á öllum stigum skólans.

 

Norræna skólahlaupið verður haldið í tengslum við upphaf Göngum í skólann, stefnt er á að halda hlaupið fljótlega. Tímasetning auglýst síðar.

Allir hlaupa sama hring, ÍBV hringinn sem eru 3 km. Við hvetjum foreldra sem hafa tök á, að koma og taka þátt í hlaupinu með okkur. 

Framkvæmdir á skólalóð Hamarsskóla

27-08-2020

Framkvæmdir á skólalóð Hamarsskóla

Kæru foreldrar og forráðamenn barna í Hamarsskóla. Eins og þið hafið tekið eftir, þá eru hafnar framkvæmdir á hluta skólalóðar við Hamarsskóla. Öflugar vinnuvélar eru að störfum innan vel afmarkaðs svæðis þar sem ýtrustu varkárni er gætt en óhjákvæmilega fylgir framkvæmdunum töluvert rask.

Byrjað er að girða af svæðið næst skólanum, svo öruggt sé að nemendur og þeir sem fara um lóðina komist ekki inn á vinnusvæðið.

Mikilvægt er að foreldrar séu upplýstir um að fyllsta öryggis er gætt í allri umferð um svæðið/skólalóðina af hálfu verktakans. Einnig er starfsfólk skólans vel meðvitað um mikilvægi öryggissvæðis á skólatíma.

Á myndinni má sjá teikningu af framkvæmdum og hvar búið er að girða svæðið af. 

Það er ljóst að við þessa aðgerð mun leiksvæði nemenda skerðast í þær vikur sem framkvæmdir standa yfir.

Hjálpumst að og horfum til þess að hér bíður okkar nýtt og fallegt leiksvæði þegar framkvæmdum líkur.

Skólastjóri GRV og umhverfis- og framkvæmdasvið Vestmannaeyjabæjar.

Leiðbeiningar fyrir mentor

26-08-2020

Hér má finna ýtarlegar leiðbeiningar um mentor kerfið.

Handbók fyrir foreldra, myndbönd, uppsetningu á mentor appi ofl. 

Við hvetjum ykkur foreldrar til að skoða þetta vel. 

Smellið á eftirfarandi til að opna: 

Velkomin í mentor - aðstandendur

Skólabyrjun í GRV

25-08-2020