Lokaverkefni 10. bekkur

Á vorönn vinna nemendur í 10. bekk nokkuð viðamikið rannsóknarverkefni og var það í fyrsta sinn vorið 2016. Verkefninu er ætlað að endurspegla almenna þekkingu og færni þeirra við lok grunnskólans. Nemendum eru gefnar nær frjálsar hendur um útfærsluna. Lokaverkefnið fyllir stundaskrá nemenda og fellur því öll önnur hefðbundin kennsla niður meðan á því stendur.

Í verkefnavinnunni er ætlast til þess að umfjöllunarefnið sem nemendur velja sér sé skoðað út frá margvíslegum sjónarhornum. Það er þverfaglegt og byggist á öflun upplýsinga, úrvinnslu og skilum í fjölbreyttu og mismunandi formi. Ætlast er til að nemendur viði að sér heimildum úr ólíkum áttum, s.s. bókum, af netinu, með viðtölum o.s. frv. Nemendur velja sér sjálfir það tjáningarform sem þeir telja henta verkefni þeirra best. Búa má til bæklinga, vefsíður, líkön, myndverk, glærur, tónlist, leikverk, dans eða hvað annað sem þeim dettur í hug.

Í anda grunnstoða nýrrar aðalnámskrár er við verkefnavinnuna lögð áhersla á frjótt skapandi ferli, verklega færni, nýsköpun og frumkvöðlahugsun. Nemendur eiga að sýna fram á gagnrýna skapandi hugsun og lausnaleit sem byggir á frumkvæði, jafnræði og sjálfstæði í vinnubrögðum við verkefnavinnuna.

Vorið 2022 verður lokaverkefnið dagana 16.maí - 1. júní. Verkefnavinnan hefst 16. maí og stendur yfir í tíu kennsludaga. Í lokin sýna nemendur afrakstur vinnu sinnar með kynningu þar sem þeir kynna verkefnið fyrir kennurum, foreldrum og öðrum gestum. Að því loknu býðst gestum að skoða fjölbreytta sýningarbása nemenda. 

Kynning á lokaverkefni - glærur